FH-ingar bíða í von og óvon

FH-ingar vonast til þess að geta spilað Evrópuleikinn á heimavelli.
FH-ingar vonast til þess að geta spilað Evrópuleikinn á heimavelli. mbl.is/Sigurður

FH-ingar fá heimaleik gegn slóvakís­ka liðinu Dunaj­ská Streda í fyrstu umferð Evrópudeildar UEFA í knattspyrnu þann 27. ágúst en dregið var í dag. Hins vegar bíða Hafnfirðingar nú eftir svari frá yfirvöldum hvort þeir fái að spila leikinn í Kaplakrika eða ekki.

Ekki er hægt að spila fótboltaleiki á íslandi, í það minnsta til 13. ágúst, vegna hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við kórónuveirunni. FH-ingar hafa sett sig í samband við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, íþróttamálaráðherra, og óskað eftir heimild til að spila leikinn.

„Við eigum fund með ráðherra, KSÍ og fleirum klukkan 13. Við þurfum bara að setja allt í gang núna til að ryðja öllum hindrunum úr vegi. Við viljum leika á hemavelli og þurfum að fá ígildi undanþágu eða skilning á því að þetta sé gert með þessum hætti,“ sagði Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH í samtali við fótbolta.net.

Fái Hafnfirðingar ekki leyfi til að spila leikinn í Kaplakrika þurfa þeir að flytja hann á hlutlausan völl. Valdimar segir koma til greina að spila í Norðurlöndunum ef þess þurfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert