„Stórir karakterar með geggjað hugarfar“

Sara Björk Gunnarsdóttir fer yfir málin með liðsfélögum sínum á …
Sara Björk Gunnarsdóttir fer yfir málin með liðsfélögum sínum á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér fannst við eiga skilið að taka þrjú stig úr þessum leik,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli eftir 1:1-jafntefli Ísland og Svíþjóðar í F-riðli undankeppni EM.

„Við skorum mark sem mér fannst fullkomlega löglegt. Eftir að hafa séð myndband af þessu þá er frekar augljóst að þetta var aldrei brot og markið hefði því alltaf átt að standa. Það er því svekkjandi að það hafi ekki fengið að standa en frammistaðan var algjörlega frábær hjá öllu liðinu.“

Alexandra Jóhannsdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir voru allar í byrjunarliði íslenska liðsins, annan leikinn í röð, og Sara hrósaði þeim í hástert í leikslok. 

„Mér finnst þessir leikmenn sem hafa verið að koma inn í þetta hafa staðið sig frábærlega. Þetta eru stórir karakterar með geggjað hugarfar. Þær vilja allar spila og eru með klikkað keppnisskap.

Þó svo að þær séu ungar þá eru þær með mikið sjálfstraust. Þetta var öðruvísi leikur en gegn Lettum sem dæmi og þetta var ákveðin prófraun fyrir þær og mér fannst þær standast þá prófraun með miklum sóma.“

Sveindís Jane Jónsdóttir hefur farið á kostum í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur farið á kostum í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sífellt ógnandi

Sænsku blaðamennirnir hrósuðu Sveindísi Jane mikið á blaðamannfundi íslenska liðsins.

„Sveindís hefur verið að sýna úr hverju hún er gerð í síðustu leikjum. Hún hefur spilað frábærlega í deildinni í sumar og þetta var virkilega gott próf fyrir hana að reyna fyrir sér gegn sterku liði Svía.

Hún var frábær. í kvöld, snögg, sterk og löngu innköstin hennar voru mikil ógn. Hún var alltaf hættuleg og var algjörlega frábær í leiknum í kvöld,“ bætti Sara við. 

mbl.is