Lykilmaður úr leik hjá Belgum - marga vantar hjá Íslendingum

Jan Vertonghen í baráttu við Yussuf Poulsen í leik Belga …
Jan Vertonghen í baráttu við Yussuf Poulsen í leik Belga og Dana í haust. AFP

Varnarmaðurinn reyndi Jan Vertonghen verður ekki með belgíska landsliðinu í knattspyrnu þegar það mætir Íslandi á Laugardalsvellinum í Þjóðadeild UEFA á miðvikudagskvöldið.

Belgíska knattspyrnusambandið staðfesti í dag að hann væri ekki klár í slaginn vegna meiðsla en hann missti líka af leiknum gegn Englandi í gær eftir að hafa fengið högg í andlitið. Vertonghen er farinn til Portúgals þar sem hann leikur með Benfica.

Þegar liggur fyrir að margir leikmanna íslenska liðsins verða ekki með gegn Belgum. Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson og Alfreð Finnbogason eru meiddir og þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Aron Einar Gunnarsson eru farnir til sinna félagsliða en það kom fram á 433.is í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka