Landsliðskona til Selfoss

Emma Checker í leik með Melbourne City.
Emma Checker í leik með Melbourne City.

Knattspyrnudeild Selfoss hefur fengið liðsstyrk fyrir komandi átök á Íslandsmótinu en ástralska landsliðskonan Emma Checker hefur samið við félagið og leikur með því í sumar.

Checker er 25 ára gamall miðvörður sem lengst af hefur leikið í heimalandinu en einnig hefur hún spilað í Suður-Kóreu og í Frakklandi. Hún á fimm A-landsleiki að baki með Ástralíu og er nú í leikmannahópi landsliðsins sem mætir Þýskalandi í æfingaleikjum í apríl. Hún flýgur svo til Íslands að því verkefni loknu.

„Við erum að fá frábæran leikmann í okkar raðir. Hún er í ástralska landsliðinu og er að berjast um að komast á Ólympíuleikana með sinni þjóð. Það er mjög ánægjulegt að hún vilji koma til okkar og styrkja okkar hóp. Þetta er reynslumikill leikmaður og það er mikil tilhlökkun hjá okkur að vinna með henni. Hún var mjög hrifin af því sem við höfum fram að færa fótboltalega séð og á eflaust eftir að geta miðlað af sinni reynslu til yngri leikmanna okkar,“ er haft eftir Alfreð Elíasi Jóhannssyni, þjálfara Selfoss, í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag.

mbl.is