Missa tvo í tveggja leikja bann

Emmanuel Eli Keke miðvörður Víkings í Ólafsvík, fyrir miðju, fékk …
Emmanuel Eli Keke miðvörður Víkings í Ólafsvík, fyrir miðju, fékk sitt annað rauða spjald á tímabilinu. mbl.is/Hari

Víkingar frá Ólafsvík verða án tveggja lykilmanna í næstu tveimur leikjum sínum í 1. deild karla í fótbolta eftir að þeir fengu báðir tveggja leikja bann hjá aga- og úrskurðarnefnd KSÍ í dag.

Ganverski varnarmaðurinn Emmanuel Eli Keke og enski framherjinn Kareem Isiaka voru báðir reknir af velli í leik Víkings og Þórs um síðustu helgi og Keke fékk þar sitt annað rauða spjald á tímabilinu. Keke fer sjálfkrafa í tveggja leikja bann af þeim sökum en Isiaka lenti í návígi þar sem hann fékk rautt spjald fyrir að sveifla hönd í andlit mótherja.

Þetta er áfall fyrir Ólafsvíkinga sem eru neðstir í deildinni og verða án leikmannanna í leikjum gegn Fjölni og Vestra.

Einn leikmaður í viðbót í 1. deildinni fékk tveggja leikja bann en það var Gunnlaugur Fannar Guðmundsson, varnarmaður Kórdrengja, sem fékk rauða spjaldið eftir 13 mínútna leik gegn ÍBV, fyrir stimpingar þar sem leikmaður Eyjamanna lá eftir.

mbl.is