Getum unnið öll lið

Birta Guðlaugsdóttir.
Birta Guðlaugsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birta Guðlaugsdóttir, markmaður Stjörnunnar, var ánægð með 3:0 sigur Garðbæinga á ÍBV á Samsung-vellinum í sjöundu umferð Pepsi Max-deildarinnar í kvöld. 

ÍBV fékk víta­spyrnu á 55. mín­útu eft­ir að Ásmund­ur Þór Sveins­son, dóm­ari leiks­ins, dæmdi hendi á Mál­fríði Ernu Sig­urðardótt­ur. Birta varði vítið vel og Eyja­kon­ur virt­ust þá end­an­lega missa móðinn í stöðunni 1:0. Chanté Sandi­ford, markmaður Stjörn­unn­ar, glím­ir nú við meiðsli en Birta fyllti skarð henn­ar vel. 

Spurð hvort hún hafi ákveðið í hvort horn marksins Birta hugðist fara segir hún: 

Maður er alltaf búinn að ákveða, allir markmenn hafa sínar leiðir. Þetta er alltaf 50/50.“

Málfríður fékk gult spjald þegar vítið var dæmt en þurfti síðan að fara á velli til að fá aðhlynningu, en hún virtist hafa fengið blóðnasir. 

„Eins og ég sá þetta fékk hún boltann beint í andlitið. Það gæti verið að hann hafi skoppað af andlitinu í höndina á henni. Maður verður bara að bera virðingu fyrir því sem dómarinn dæmir,“ segir Birta um dóminn. 

Heilt yfir er Birta ánægð með sigurinn og spennt fyrir framhaldinu. 

„Þetta var geggjað. Við fáum núna tvo sigra í röð á móti góðum liðum og það er bara frábært,“ segir Birta. Liðið sé spennt fyrir leik gegn sterku liði Breiðabliks í næstu umferð.  

Eftir sigurinn í kvöld situr Stjarnan í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Selfoss sem á þó leik inni. Birta segir deildina opna og skemmtilega í ár. Fjölmörg lið séu í stöðu til að sækjast eftir Íslandsmeistaratitlinum. 

„Maður stefnir alltaf eins hátt og maður getur, ef við getum stefnt á fyrsta sætið þá gerum við það. Það er svo magnað við þetta lið að sama hvað gerist höldum við alltaf áfram að berjast,“ segir Birta og bætir við um deildina í ár: 

„Þetta er óútskýranlegt, sérstaklega miðað við í fyrra. Valur og Breiðablik voru toppliðin í fyrra og þetta er miklu opnara núna. Það er gaman fyrir okkur því við eigum góðan séns á að vinna öll lið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert