„Held að framtíðin sé mjög björt“

Birkir Bjarnason segir samherjum sínum til í dag.
Birkir Bjarnason segir samherjum sínum til í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Bjarnason lék sinn 100. A-landsleik með Íslandi þegar liðið gerði 2:2 jafntefli gegn Norður-Makedóníu í undankeppni HM 2022 í dag. Hann hrósaði ungum leikmönnum liðsins í hástert.

„Við vorum alls ekki nógu sáttir við fyrri hálfleikinn, þetta var alls ekki nógu gott. En mér fannst við rífa okkur í gang, koma út og sýna hvað við stöndum fyrir og það var bara synd að við náðum ekki að klára leikinn undir lokin.

Þetta var alls ekki nógu góð byrjun, við vorum ekki nógu klárir í þetta. En við sýndum karakter, komum til baka og vorum ekkert voðalega langt frá því að taka öllu þrjú stigin,“ sagði Birkir í samtali við RÚV eftir leik.

Spurður hvernig honum þætti að spila með fjölda ungra leikmanna, sem skoruðu til að mynda bæði mörk Íslands sagði Birkir:

„Það er bara gaman. Það er gaman að sjá þessa ungu stráka koma inn og það eru gríðarlega mikil gæði í þessum strákum. Þeir eru margir að koma inn núna og þeir þurfa bara að fá smá tíma til að komast inn í þetta með okkur gömlu. Ég held að framtíðin sé mjög björt.“

Í næsta leik bíður stórþjóð Þýskalands á miðvikudag. Birkir sagði þann leik leggjast vel í hópinn. „Bara vel. Þetta er náttúrlega gríðarlegt álag, þrír leikir á stuttum tíma en það er alltaf gaman að mæta stórum þjóðum og við gírum okkur upp í hann og verðum klárir,“ sagði hann að lokum í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert