Sex mörk og rautt spjald í Garðabænum

Katrín Ásbjörnsdóttir og Karitas Tómasdóttir í leik liðanna í fyrri …
Katrín Ásbjörnsdóttir og Karitas Tómasdóttir í leik liðanna í fyrri umferðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan og Breiðablik skildu jöfn, 3:3, í fjörugum leik í Garðabænum í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í dag.

Heimakonur fengu sannkallaða draumabyrjun þegar Betsy Hassett kom þeim í forystu strax á þriðju mínútu, skoraði af stuttu færi eftir stungusendingu frá Hildigunni Ýr Benediktsdóttur. Gestirnir náðu að jafna metin á 18. mínútu, Agla María Albertsdóttir skoraði innan teigs eftir að skot Tiffany McCarty hafði hrokkið af varnarmanni.

Fimm mínútum síðar var svo viðsnúningurinn fullkomnaður er Hildur Antonsdóttir kom blikum í forystu með laglegum skalla. Eftir þetta voru Blikar kröftugir en fengu svo á sig mark, gegn gangi leiksins. Gyða Kristín Gunnarsdóttir, sem átti góðan leik, fékk sendingu inn fyrir vörn Blika sem reyndi að spila hana rangstæða. Flaggið fór ekki á loft og Gyða skoraði, yfirveguð með hnitmiðuðu skoti.

Gestirnir urðu svo fyrir áfalli rétt fyrir hálfleik er Selma Sól Magnúsdóttir missti boltann illa í vörninni og braut í kjölfarið á Snædísi Maríu Jörundsdóttur sem var sloppinn í gegn. Gunnar Freyr Róbertsson dómari hafði ekki annan kost í stöðunni eða vísa Selmu af velli með rautt spjald. Blikar voru því manni færri allan síðari hálfleikinn en tóku engu að síður forystuna á ný.

Tiffany McCarty skoraði á 49. mínútu með skoti sem sveif yfir Höllu Margréti Hinriksdóttur í marki Stjörnunnar. Heimakonur nýttu þó liðsmuninn til að kreista fram annað jöfnunarmark, Gyða Kristín skoraði það úr vítaspyrnu eftir að Karitas Tómasdóttir handlék knöttinn í eigin vítateig. Fleiri urðu mörkin þó ekki, lokatölur 3:3.

Stjarnan 3:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert