Tveir reknir út af í stórsigri FH

FH-ingar sóttu mjög í rokinu í Garðabænum í kvöld.
FH-ingar sóttu mjög í rokinu í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Stjarnan og FH mættust í Pepsi Max deild karla á Samsung vellinum í Garðabæ í kvöld. Bæði lið voru um miðja deild og höfðu því að frekar litlu að keppa.

Í stuttu máli sagt voru yfirburðir gestanna gífurlegir og unnu þeir sannfærandi 0:4 sigur. Með sigrinum slitu FH-ingar sig enn lengra frá Stjörnunni en sitja þó ennþá í sjötta sæti deildarinnar. Það er ljóst að þar munu þeir enda því þeir geta hvorki náð Valsmönnum í fimmta sætinu, né geta Stjörnumenn náð þeim.

Mikill vindur var í Garðabænum og hafði hann töluverð áhrif á leikinn. Boltinn var mikið utan vallar og áttu liðin erfitt með að ná upp spilköflum framan af leik. Á 20. mínútu krækti Baldur Logi Guðlaugsson í aukaspyrnu við vinstra vítateigshorn Stjörnumanna. Baldur tók aukaspyrnuna sjálfur og gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum upp í nærhornið. Óverjandi fyrir Harald Björnsson sem stóð frosinn á marklínunni.

Korteri seinna tvöfölduðu svo gestirnir forystu sína. Jónatan Ingi Jónsson fékk þá boltann við miðlínu hægra megin og tók á rás. Jónatan fór glæsilega framhjá tveimur varnarmönnum Stjörnunnar og komst að vítateignum áður en hann lagði boltann til vinstri á Loga Hrafn Róbertsson sem kom á ferðinni. Logi tók skot í fyrsta sem Haraldur varði vel, en boltinn datt beint fyrir fætur Matthíasar Vilhjálmssonar sem gerði engin mistök og negldi boltanum í þaknetið. 

Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik brunuðu FH-ingar í skyndisókn. Guðmundur Kristjánsson, miðvörður FH tók á rás með boltann og hljóp með hann u.þ.b. 70 metra áður en Eggert Aron Guðmundsson, sem hljóp Guðmund uppi, klippti hann niður aftan frá og uppskar réttilega beint rautt spjald. Eggert var of langt frá því að ná til boltans að dómari leiksins, Ívar Orri Kristjánsson, gat ekkert annað gert en að senda hann af velli. Hálfleikstölur því 0:2.

Þegar að rétt rúmlega tíu mínútur voru búnar af seinni hálfleik fór ótrúleg atburðarás í gang. Emil Atlason vann kapphlaup um boltann við miðverði FH-inga en Gunnar Nielsen ákvað að skella sér í skógarhlaup og negla hann niður þegar hann reyndi að hreinsa boltann í burtu. Ívar Orri dæmir vítaspyrnu og gefur Gunnari gult spjald en eftir smá fundarhöld breytir hann dómnum í aukaspyrnu og rautt spjald. Bæði lið því búin að missa mann af velli. 

Tæpum tíu mínútum seinna tók Ólafur Guðmundsson innkast vinstra megin á Matthías Vilhjálmsson sem var með mann í bakinu. Matthías sneri varnarmanninn listilega af sér og negldi boltanum yfir á Jónatan Inga sem tók mjög vel við honum, lék inn á teiginn og smellti honum innanfótar í fjærhornið. Ótrúlega auðvelt en mjög fallegt. 

Á 82. mínútu gerðu FH-ingar svo fjórða markið og það var af dýrari gerðinni. Baldur Logi fékk boltann við vinstra vítateigshornið, lék upp að endamörkum og lagði hann þvert fyrir markið. Þar kom Jónatan Ingi á ferðinni, hljóp yfir boltann og bjó til algjört dauðafæri fyrir Matthías Vilhjálmsson sem gerði engin mistök. Gjörsamlega frábært mark. Lokatölur 0:4. Algjörir yfirburðir FH-inga.

Að öðrum ólöstuðum var Matthías Vilhjálmsson maður leiksins með tvö mörk og eina stoðsendingu. Jónatan Ingi Jónsson var einnig frábær og var sífellt ógnandi. Yfirburðir gestanna voru svo miklir að eftir fyrsta mark FH var sigurinn aldrei í hættu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Stjarnan 0:4 FH opna loka
90. mín. FH fær hornspyrnu
mbl.is