Þrýstum á og fengum víti og rautt spjald

Óttar Bjarni Guðmundsson fyrirliði Skagamanna.
Óttar Bjarni Guðmundsson fyrirliði Skagamanna. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

„Mér fannst þetta mjög góð frammistaða hjá okkur, heilsteypt og byrjum vel þegar við þrýstum á Fylkismenn, fá svo víti og rautt spjald á þá,“ sagði Óttar Bjarni Guðmundsson fyrirliði ÍA eftir 5:0 sigur á Fylki þegar liðið mættust á Akranesi í dag og leikin var 21. af 22 umferð efstu deildar karla í fótbolta.

„Mér fannst þetta því  spilaðist vel fyrir okkur og við héldum áfram að hamra járnið.   Við vorum nokkuð rólegir, vissum að við fengjum færi áður en yfir lyki og þá var málið að gera ekki nein mistök aftast í vörninni því völlurinn bíður mikið uppá það, að bolti eða menn renni svo við tókum enga áhættu þar og héldum boltanum á þeirra vallarhelmingi.“

Skagamenn fóru úr neðsta sæti deildarinnar í það tíunda en HK, sem er í 11. sæti mætir Stjörnunni á morgun.  Falldraugurinn er því enn á sveimi á Akranesi og reyndar víðar.  „Við stilltum lokaleikjunum sem ákveðið þriggja leikja verkefni og erum alveg meðvitaðir um að þetta er ekki búið, það er einn leikur eftir í deildinni og þurfum nú að ná okkur strax niður á jörðina til að undirbúa leikinn við Keflavík þar sem við þurfum að ná góðum úrslitum, þetta er ekki flóknara en það,“ bætti fyrirliðinn við.

Má segja að við vorum 12 á móti 10

Ísak Snær Þorvaldsson miðjumaður ÍA var sáttur við sína menn, sérstaklega þá sem voru á áhorfendapöllunum.  „Mér fannst þó að við værum einum fleiri að við ættum þennan leik allan tímann.   Við vorum alltaf öruggir og ekkert fá opin færi á okkur.  Svo tókum við þá í sóknarleiknum, spiluðum upp kantana sem var veikleikinn þeirra en tókum þá líka á baráttunni.   Við erum auðvitað klárir fyrir framhaldið.  Það höfðu ekki margir trú á okkur, sérfræðingarnir tala ekkert vel um okkur en það ýtir bara undir hjá okkur.  Svo er stuðningurinn, það er ekki hægt annað en vinna leikinn fyrir framan svona fólk og má segja að við höfum verið tólf á móti tíu í þessum leik,“ sagði Ísak Snær eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert