Vanda sækist eftir formannsembættinu

Vanda Sigurgeirsdóttir starfar í dag sem lektor í tómstunda- og …
Vanda Sigurgeirsdóttir starfar í dag sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Vanda Sigurgeirsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns KSÍ á næsta ársþingi sambandsins sem fram fer í febrúar á næsta ári. Þetta tilkynnti hún á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Guðni Bergsson lét af störfum sem formaður sambandsins í lok ágústmánaðar eftir að sambandið hafði verið harðlega gagnrýnt fyrir þöggun og meðvirkni með meintum gerendum innan sambandsins.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands,“ sagði Vanda í facebook-færslu sem hún birti í morgun.

„Ég hef fengið fjölda áskorana frá fjölskyldu og vinum, frá fjölbreyttum hópi fólks í samfélaginu og úr knattspyrnuhreyfingunni sjálfri. Ég er mjög þakklát fyrir þessa hvatningu. Þetta var ekki einföld ákörðun en af vandlega íhuguðu máli ákvað ég bjóða mig fram.

Mér þykir vænt um þessa hreyfingu og hef verið partur af henni stóran hluta ævi minnar. Ég tel að ég sé vel til þess fallinn að leiða þá vinnu sem framundan er,“ sagði vanda meðal annars.

Vanda er fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu og margreyndur þjálfari. Hún lék 37 A-landsleiki fyrir Íslands hönd þar sem hún skoraði eitt mark og var leikjahæsti leikmaður liðsins þegar hún hætti, og þá var hún fyrirliði liðsins í 28 leikjum, sem og þjálfari kvennalandsliðsins frá 1997 til 1998. 

Hún lék 147 leiki í efstu deild með ÍA og Breiðabliki frá 1983 til 1996 og varð níu sinnum Íslandsmeistari, þrisvar með ÍA og sex sinnum með Breiðabliki, sem og þrisvar bikarmeistari með báðum félögunum. Vanda lék árið 1988 með GAIS í Svíþjóð og tók síðan fram skóna og spilaði með Tindastóli árin 2007 og 2008.

Þá er hún eina konan sem hefur verið aðalþjálfari karlaliðs í deildakeppni á Íslandi þegar hún stýrði Neista á Hofsósi árið 2001.

mbl.is