Æðri máttarvöld að verki

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég vil byrja á því að óska Víkingunum hjartanlega til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins gegn HK í lokaumferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvelli í dag.

„Ég get ekki verið annað en ánægður með þetta tímabil. Við setjum stigamet hjá félaginu í efstu deild. Við skorum 55 mörk og fáum á okkur 21. Endum með 34 mörk í plús og komumst í þriðju umferð í Evrópukeppninni. Hvernig sem er litið á þetta þá er þetta mjög gott tímabil af okkar hálfu.

Ég ætla ekki að segja það sé einhver skuggi að hafa ekki náð að landa bikarnum en við vorum vissulega komnir í ákjósanlega stöðu fyrir umferðina um síðustu helgi og úr því sem komið var þá vildi maður auðvitað meira,“ sagði Óskar.

Breiðablik hafnaði í öðru sæti deildarinnar eftir harða baráttu við …
Breiðablik hafnaði í öðru sæti deildarinnar eftir harða baráttu við Víkinga um Íslandsmeistaratitilinn. Ljósmynd/Kristinn Freyr

Hrós til Víkinga

Breiðablik var með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar fyrir 21. umferðina en liðið tapaði gegn FH í Kaplakrika í næst síðustu umferðinni á meðan Víkingar unnu ævintýralegan sigur gegn KR í Vesturbæ.

„Þegar tvær vítaspyrnur þurfa að fara forgörðum með tuttugu mínútna millibili á stórhöfuðborgarsvæðinu til þess að setja þig úr bílastjórasætinu þá einhvernvegin verður maður bara að játa sig sigraðana.

Þetta voru einhver æðri máttarvöld að verki og það var bara einhverjum öðrum ætlað að vinna Íslandsmeistaratitilinn í ár. Ég verð að hrósa Víkingunum fyrir að klára sitt og þetta var bara hrikalega vel gert hjá þeim,“ bætti Óskar við í samtali við mbl.is.

mbl.is