Ekkert rætt við Söru Björk

Þorsteinn Halldórsson
Þorsteinn Halldórsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hefði viljað sjá okkur spila betur," sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta, á blaðamannafundi eftir 4:0-sigur á Kýpur á útivelli í undankeppni heimsmeistaramótsins í dag. Þrátt fyrir sigurinn var þjálfarinn ekki sáttur við spilamennskuna. 

„Við sköpuðum okkur ekki nógu mikið og svo var mikið af slökum sendingum. Við vorum of mikið í því að spila þvert til baka. Við fórum of mikið örugga leiðina. Við vorum ekki nógu beinskeytt til að ná að hreyfa þær. Seinni hálfleikurinn var svo flatur,“ sagði hann. 

Þó var Þorsteinn ánægður með eitthvað, enda stórsigur á útivelli raunin. „Við skoruðum fjögur mörk og við skömmumst okkar ekki fyrir það. Í svona keppni snýst þetta um að vinna fótboltaleiki. Þetta snýst um að halda þeirri stöðu að við erum í bílstjórasætinu og stjórna örlögum okkar sjálf.“

Sara Björk Gunnarsdóttir fæddi á dögunum sitt fyrsta barn, en Þorsteinn hefur ekki rætt við hana um endurkomu í landsliðið. „Ég hef ekkert rætt við hana. Hún þarf að koma sér í gang. Vonandi gengur það vel. Ég hef ekkert spáð í þeim möguleika,“ sagði Þorsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert