Hringdi í alla stjórnarmeðlimi vegna Eiðs Smára

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, hringdi í alla stjórnarmeðlimi KSÍ fyrir stjórnarfund sambandsins hinn 23. nóvember til þess að ræða málefni þáverandi aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins Eiðs Smára Guðjohnsen.

Þetta kom fram í fundargerð stjórnarinnar sem birtist á heimasíðu KSÍ í gær en ásamt Vöndu sátu þau Ásgrímur Helgi Einarsson, Guðlaug Helga Sigurðardóttir, Helga Helgadóttir, Ingi Sigurðsson, Orri V. Hlöðversson, Sigfús Ásgeir Kárason og Unnar Stefán Sigurðsson fundinn.

Þá sátu þau Borghildur Sigurðardóttir og Valgeir Sigurðsson einnig fundinn í gegnum samfélagsmiðilinn Teams.

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ opnaði umræðu um landsliðsmál Rætt var um ferð A landsliðs karla til Rúmeníu og Norður-Makedóníu,“ segir í fundargerð KSÍ.

„Áður hafði formaður hringt í alla stjórnarmeðlimi og greint þeim frá þeim málum sem til umræðu komu. Þar var rætt um starf og stöðu aðstoðarlandsliðsþjálfara A-liðs karla í kjölfar atvika sem hafa komið til kasta sambandsins.

Fyrir liggur áminning í starfi til umrædds starfsmanns frá því sl. sumar. Niðurstaða málsins varð sú að stjórn KSÍ og Eiður Smári Guðjohnsen komust að samkomulagi um starfslok hans sem aðstoðarþjálfari A landsliðs karla.

Samkomulagið snýr að því að virkjað verður endurskoðunarákvæði í ráðningarsamningi sem gerður var milli hans og KSÍ og mun hann láta af störfum 1. desember næstkomandi. Stjórn KSÍ þakkar Eiði Smára fyrir hans störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni,“ segir ennfremur í fundargerðinni.

Eiður Smári lét formlega af störfum hjá sambandinu í gær en KSÍ sendi út fréttatilkynningu 23. nóvember þar sem tilkynnt var að hann myndi láta af störfum. Samkvæmt heimildum mbl.is var Vanda ein af þeim stjórnarmeðlimum sem vildi halda Eiði Smára í starfi.

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mb.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is