Selma samdi við Rosenborg

Selma Sól Magnúsdóttir í Evrópuleik með Breiðablik á síðasta ári.
Selma Sól Magnúsdóttir í Evrópuleik með Breiðablik á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selma Sól Magnúsdóttir, knattspyrnukona úr Breiðabliki, er gengin til liðs við norska úrvalsdeildarfélagið Rosenborg.

Norska félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni í dag en liðið er með þeim þeim sterkustu á Norðurlöndum og hafnaði í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar 2021 eftir einvígi við Sandviken um norska meistaratitilinn.

Selma Sól er 23 ára miðjumaður sem hefur leikið með Breiðabliki allan ferilinn, að undanskilinni lánsdvöl hjá Fylki. Hún á að baki 84 leiki í úrvalsdeildinni og hefur skorað átta mörk og á að baki 16 A-landsleiki og 26 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is