„Höldum okkur á jörðinni þó við séum efstir núna“

Damir Muminovic fylgist með Degi Dan Þórhallssyni og Axel Frey …
Damir Muminovic fylgist með Degi Dan Þórhallssyni og Axel Frey Harðarsyni eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Damir Muminovic var öflugur í vörn Breiðabliks þegar liðið vann öruggan 3:0-sigur á ríkjandi Íslandsmeisturum Víkings úr Reykjavík á Víkingsvellinum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er náttúrlega bara mjög glaður. Okkur hefur ekki gengið gengið neitt rosalega vel hér undanfarið þannig að það var gott að koma hingað og taka þrjú stig,“ sagði Damir í samtali við mbl.is eftir leik.

Markalaust var í leikhléi eftir afar tíðindalítinn fyrri hálfleik en svo skoruðu Blikar mörkin sín þrjú á 17 mínútna kafla í þeim síðari. Hverju breyttu Kópavogsbúar í hálfleik?

„Mér fannst við vera aðeins of aftarlega í fyrri hálfleik, þeir voru að ýta okkur aðeins niður. En okkur líður alveg vel þar líka enda erum við góðir að verjast. Í seinni hálfleik ákváðum við að fara aðeins meira á þá, pressa þá ofar og það gekk bara vel,“ útskýrði hann.

Með sigrinum fór Breiðablik aftur á topp deildarinnar þar sem liðið er fullt hús stiga, 18 stig, að loknum sex leikjum. Þrátt fyrir fullkomna byrjun sagði Damir Blika ekki vera að fara fram úr sér.

„Við höldum okkur á jörðinni þó við séum efstir núna, það eru bara sex umferðir búnar og nóg eftir þannig að við erum bara rólegir.“

Næst fær Breiðablik nýliða Fram í heimsókn á Kópavogsvöllinn næstkomandi sunnudag. Fram vann sinn fyrsta sigur í deildinni í kvöld og býst Damir við erfiðum leik gegn Frömurum.

„Það er alltaf erfitt að mæta nýliðum, mér finnst það allavega. Þetta verður bara erfitt og verðugt verkefni. Þeir eru með gott lið og frábæra leikmenn,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert