Kærkominn sigur

Jón Sveinsson, þjálfari Framara, á hliðarlínunni í kvöld.
Jón Sveinsson, þjálfari Framara, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jón Sveinsson, þjálfari Fram, brosti breitt þegar að blaðamaður mbl.is náði tali af honum strax eftir 2:1 sigur Fram á liði Leiknis í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Fyrsti sigur Framara kom í Breiðholti

„Þetta var svo sannarlega kærkominn sigur. Ég var mjög ánægður með framlagið og baráttuna í mínum mönnum í kvöld. Við lögum okkur alla í þetta. Þetta var erfiður leikur á erfiðum velli. Það var kannski meiri barátta en fótbolti á köflum en menn voru að reyna en við skoruðum tvö mörk svo ég er sáttur sérstaklega þar sem það dugði til sigurs í dag. Þannig að ég er mjög ánægður. Leiknismenn eru erfiðir heim að sækja og þú þarft virkilega að hafa fyrir hlutunum þegar þú spilar gegn Leikni. Fyrir leikinn voru þeir í svipaðri stöðu og við. Bæði þessi lið þurftu sigur í dag, sinn fyrsta sigur, þannig að maður vissi að það yrði smá tilfinningar og taugaveiklun í leiknum en sem betur fer náðum við að landa þessu. Mér fannst við bara langa þetta aðeins meira. Það var kannski aðeins meiri pressa á þeim fyrir þennan leik þar sem sérfræðingarnir voru búnir að tala þá upp fyrir mótið en hafa byrjað illa og það er alltaf erfitt þegar væntingarnar eru kannski meiri. Svo voru þeir líka á heimavelli og þeir virkilega þurftu á sigri að halda þannig að kannski var bara meira stress í þeirra liði en okkur í kvöld. En við þurftum líka markvörslu til að landa þessu. Óli átti ansi góða vörslu þarna í lokin. Það mátti ekki miklu muna en þessi tvö mörk okkar voru ansi flott. Það var kominn tími á mark frá Fred. Hann er búinn að vera nálægt því öllum leikjunum held ég. Gummi er svo þarna til að skora mörk og það var það sem hann gerði í dag og landaði sigrinum fyrir okkur í dag. Þeir komu ferskir inn strákarnir af bekknum, gott að fá inn ferskar lappir. Það er auðvitað búið að vera mikið álag. Það er stutt síðan að við spilum síðasta leik þannig að við vissum að við þyrftum að rúlla á mannskapnum í dag og þeir menn sem komu inn á í kvöld létu þær mínútur telja sem þeir fengu og maður er eðlilega mjög ánægður með það,“ sagði Jón Sveinsson að lokum við blaðamann mbl.is eftir fyrsta sigurleik Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

mbl.is