„Mönnum voru mislagðir fætur“ 

Arnar Grétarsson á hliðarlínunni.
Arnar Grétarsson á hliðarlínunni. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

KA og Stjarnan mættust á Dalvíkurvelli í dag í Bestu deild karla. Völlurinn hefur reynst KA-mönnum gjöfull og hafa Dalvíkingarnir þrír í liði KA átt góða leiki þar. Í dag var fátt að frétta að knattfimi Dalvíkinganna sem og annarra leikmanna KA sem tapaði leiknum 2:0.

Lið KA spilaði ágætlega á köflum í leiknum en náði engan veginn upp þeim krafti og ákefð sem hefur einkennt leik þeirra í sumar. Of margir leikmenn liðsins voru töluvert frá sínu besta og tók þjálfarinn Arnar Grétarsson undir það í viðtali eftir leik. 

„Munurinn á liðunum í fyrri hálfleik var bara þetta stórkostlega skot þarna sem kom Stjörnunni í 1:0. Mér fannst við byrja betur en þeir og vorum oft að koma okkur í fínar stöður í kringum teig Stjörnunnar. En þá kom yfirleitt léleg ákvörðun og við töpuðum boltanum oft illa. Mörk breyta leikjum og Stjarnan efldist við markið sitt.

Í seinni hálfleik fór Stjarnan ágætlega af stað en í rauninni var ekkert í gangi. Seinna markið þeirra kom bara upp úr engu og gerði allt miklu erfiðara fyrir okkur. Ég á erfitt með að segja hvort um rangstöðu hafi verið að ræða en línuvörðurinn var ekkert í línu við öftustu menn. Hann var langt fyrir aftan þá. Þetta var því ansi blóðugt og ekki hægt að sjá þetta þar sem myndavélin var ekki á þessum leikmönnum. Hún var enn að mynda hinn vallarhelminginn.

Það sem er þó mest svekkjandi er ráðaleysi okkar á síðasta þriðjungi. Fyrirgjafir voru slakar, ákvörðunartökur líka. Þetta var allt mjög sérstakt. Við höfum alltaf náð að skapa okkur færi en ekki í dag. Þetta þurfti ekki að fara svona en það voru bara of margir sem áttu ekki góðan dag. Mönnum voru mislagðir fætur. Við þurfum bara að vera klárir í næsta leik, sem er í bikarkeppninni á fimmtudaginn“ sagði Arnar og gat hreinlega ekki komist betur að orði. 

mbl.is