„Sýnir hversu miklir töffarar þær eru“

Frá æfingu kvennalandsliðsins á Laugardalsvelli í gær.
Frá æfingu kvennalandsliðsins á Laugardalsvelli í gær. mbl.is/Hákon Pálsson

Reynsluboltinn Sif Atladóttir er á leið sitt fjórða Evrópumót með íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu. Hún segir það ávallt jafn spennandi að taka þátt á stórmóti enda forréttindi að vera einn af 23 leikmönnum liðsins sem fái að gera það.

„Tilfinningin er bara skemmtileg. Þetta eru alltaf ákveðin forréttindi. Skemmtilegt er kannski besta orðið yfir það,“ sagði Sif í samtali við mbl.is skömmu fyrir fyrstu æfingu landsliðsins í undirbúningi fyrir EM 2022 á Laugardalsvelli í gær.

Sif í leik með íslenska landsliðinu gegn því þýska á …
Sif í leik með íslenska landsliðinu gegn því þýska á EM 2009. Edda Garðarsdóttir fylgist grannt með. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hún hefur ýmsa fjöruna sopið á löngum ferli og sagði það erfitt að bera saman landsliðin sem á undan hafa komið enda margt breyst frá því að Sif fór á sitt fyrsta stórmót, EM 2009 í Finnlandi. Til að mynda er hún aðeins ein af fjórum leikmönnum úr þeim hópi sem er enn að spila.

„Við erum núna með kynslóð sem er framar á þeim aldri sem þær eru heldur en við höfum haft áður, oft og tíðum. Það er erfitt að bera liðin saman. Ef við tökum fyrsta EM okkar árið 2009, það eru náttúrlega fyrstu skrefin og við sem vorum þar, kjarninn í þeim hóp var náttúrlega búinn að ryðja brautina fyrir þann tíma. Þannig að þetta er svona skref fyrir skref.

En það skemmtilegasta við þennan hóp í dag er að liðin í Evrópu eru svo jöfn. Auðvitað eru alltaf Frakkarnir og Þjóðverjarnir þarna, þetta verða alltaf stórar þjóðir enda með söguna á bakvið sig en allir aðrir eru bara búnir að spýta í lófana og ég held að við séum pínu þar líka með kynslóðina sem er að koma upp.

Ég las að það væru ellefu leikmenn hjá okkur sem eru að stíga sín fyrstu skref á stórmóti, sem er ákveðinn status fyrir okkar ungu kynslóð. Ég held að þetta verði bara skemmtilegt. Þær eru kannski rólegri en maður hefði þorað að vona fyrir þessa ungu kynslóð. Það sýnir bara hversu miklir töffarar þær eru,“ sagði hún.

Vita hvað þær vilja

Spurð nánar út í hvernig yngri leikmenn landsliðsins eru rólegri en Sif þorði að vona sagði hún það helst snúa að því að þær viti allar hvað þær vilja.

„Þú sérð að Sveindís [Jane Jónsdóttir] er í Wolfsburg, svo eru stelpurnar í Bayern, Guðrún [Arnardóttir] er að standa sig vel í Svíþjóð og stelpurnar í Noregi líka.

Svo erum við með refina, Dagnýju [Brynjarsdóttur] í Englandi, Sara [Björk Gunnarsdóttir] er búin að vera í Lyon og Gunný [Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir] í Bandaríkjunum. Við erum með vítt og breitt svið af leikmönnum út um allan heim.

Þessar ungu vita hvað þær vilja, þær eru komnar í stórkostleg umhverfi til þess að bæta sig og ég held að skrefið fyrir þær að fara svona ungar út geri það að verkum að þær eigi eftir að læra andlegu hliðina hraðar heldur en kannski ég og mín kynslóð gerði, af því að það er lagt meira upp úr andlegu hliðinni sem er í grunninn stærsta vopnið fyrir þær,“ útskýrði Sif.

Má vera létt og skemmtilegt

Líkt og áður segir hófst undirbúningurinn fyrir EM 2022 á Englandi í gær. Sif sagði útlitið á leikmannahópnum gott í upphafi undirbúningsins.

„Já ég held það. Stelpurnar sem eru búnar að klára tímabilin sín úti hafa verið að æfa vel og við hér heima erum náttúrlega að koma úr mjög þéttri dagskrá þannig að við fáum vonandi nokkra daga til að ná okkur og koma líkamanum í æfingaform, við erum í mjög góðu spilstandi.

Sif í leik með Selfossi gegn ÍBV fyrr í sumar.
Sif í leik með Selfossi gegn ÍBV fyrr í sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Ég held að fyrstu dagana verði bara gaman að mæta aftur á völlinn og hafa svolítið létt og skemmtilegt. Svo förum við að demba okkur inn í alvarleikann en það má alveg vera létt og skemmtilegt þar á milli,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka