Hörkuleikur á móti langbesta liðinu

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, segir sínum mönnum til í leiknum …
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, segir sínum mönnum til í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti toppliði Breiðabliks í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn var opinn og skemmtilegur en endaði samt sem áður með markalausu jafntefli, 0:0.

Eyjamenn voru fyrir leikinn á botni töflunnar og kom spilamennska þeirra gegn toppliðinu því einhverjum á óvart. Þegar allt kom til alls hefðu Eyjamenn vel getað stolið stigunum þremur, en jafntefli sanngjörn úrslit.

Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var eðli málsins samkvæmt kampakátur með sína peyja eftir leikinn.

„Ég er bara stoltur af liðinu. Skemmtilegur leikur. Við fórum í það sem við erum búnir að vera gera, pressuleik, og það verða opnanir af því og við fengum einhver færi og þeir einhver færi. Þetta var skemmtilegt. Kraftur í stuðningsmönnum og þeir smituðu leikmenn og öfugt.

Baráttuvilji og mikil orka. Ég er ótrúlega stoltur af liðinu. Við erum ekki búnir að vinna leik ennþá en þetta er langbesta liðið, lang efstir, búnir að skora flest mörk og þetta varð bara hörkuleikur,“ sagði Hermann.

Eins og hefur komið fram var háttur leiksins engan veginn á þá vegu að toppliðið væri að spila við botnliðið. Eyjamenn voru kraftmiklir og ollu Blikum allskonar vandræðum um allan völl.

„Við einbeitum okkur að okkur sjálfum. Við setjum kraft í þesssa leiki. Við erum hungraðir í sigur, í sigurvímu. Það er hægt að fara í tvær áttir. Það er hægt að bogna en við erum að spila eins og við séum um miðja deild.

Menn mæta hérna á móti toppliðinu og gera hörkuleik úr þessu. Vissulega þurfum við sigur, en þeir eru gott lið og þetta hefði getað dottið báðu megin,“ sagði Hermann og vildi meina að staða Blika í deildinni hefði ekki haft áhrif á hvernig Eyjamenn nálguðust leikinn.

Eftir leikinn er ÍBV ennþá í fallsæti, í næstneðsta sæti, einu stigi á undan Leiknismönnum sem eiga leik til góða. Það hefur þó verið til umræðu undanfarið að spilamennska Eyjamanna í sumar sé betri en stigataflan segir til um. Hermann horfði þó inn á við þegar hann var spurður um ástæðu þess að liðið væri við botninn þrátt fyrir ágæta spilamennsku.

„Þetta helst aðeins í hendur með byrjuninni. Það verður örvænting eftir fyrsta sigrinum og svo erum við klaufar að hafa hent frá okkur lykilstöðum í leikjum. Að sama skapi höfum við verið að fá svolítið af færum sem við höfum ekki nýtt þau og það er dýrt. Eins og Víkingsleikurinn, hvernig við töpum honum er fáranlegt.

Við fengum fjórfalt fleiri færi og hornspyrnur og allt, en þetta snýst um að nýta færin. Eins og leikurinn í dag, það hefðu alveg getað verið mörk í þessu en liðið var frábært og ég er hrikalega ánægður með kraftinn og andann í liðinu. Það eru allir gjörsamlega búnir, en eins og ég segi, þú þarft að hafa fyrir hlutunum á móti frábæru fótboltaliði,“ sagði Hermann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert