Annar á öldinni til að skora fimm þrennur

Patrick Pedersen skoraði þrjú mörk gegn Stjörnunni í kvöld.
Patrick Pedersen skoraði þrjú mörk gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danski framherjinn Patrick Pedersen heldur áfram að skrá nafn sitt í sögubækur íslensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir að hafa skorað sína fimmtu þrennu á jafnmörgum árum í stórsigri Vals á Stjörnunni, 6:1, í Bestu deild karla á Hlíðarenda í kvöld.

Patrick er aðeins annar leikmaðurinn til að skora fimm þrennur í deildinni á þessari öld en á undan honum til þess varð Steven Lennon, skoski framherjinn hjá FH.

Patrick skoraði tvær fyrstu þrennurnar árið 2018, gegn Grindavík og ÍBV. Þá þriðju skoraði hann gegn HK árið 2020 og þá fjórðu gegn Fylki árið 2021.

Þá er Patrick með mörkunum þremur í kvöld orðinn níundi markahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla og deilir hann nú sætinu með Óskari Erni Haukssyni, núverandi leikmanni Stjörnunnar, en þeir hafa báðir skorað 86 mörk í deildinni.

Alls hafa nú  ellefu leikmenn skorað fimm þrennur eða fleiri frá árinu 1952. Hermann Gunnarsson er þrennukóngurinn með níu slíkar (þrjú mörk eða fleiri í leik), sex fyrir Val og þrjár fyrir ÍBA á Akureyri. Á eftir honum koma Tryggvi Guðmundsson og Þórólfur Beck með 7 þrennur hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert