Áslaug Munda áfram hjá Blikum

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með Breiðabliki síðasta sumar.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í leik með Breiðabliki síðasta sumar. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við Breiðablik.

Samkvæmt heimasíðu KSÍ gildir nýi samningurinn til 16. nóvember árið 2025 og verður Áslaug Munda því áfram í Kópavogi næstu þrjú tímabil hið minnsta.

Hún stundar nám við hinn virta Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og hefur því ekki náð að taka þátt í síðustu tveimur tímabilum með Breiðabliki í heild sinni.

Áslaug Munda er uppalin hjá Hetti á Egilsstöðum og Völsungi á Húsavík en gekk til liðs við Blika árið 2018.

Hún á 65 leiki að baki í efstu deild fyrir Breiðablik, þar sem hún hefur skorað 12 mörk. Einnig á hún 11 A-landsleiki að baki.

mbl.is