Jafntefli þrátt fyrir að vera einum fleiri í klukkustund

Kristian Nökkvi Hlynsson jafnaði metin fyrir Ísland undir lok leiksins.
Kristian Nökkvi Hlynsson jafnaði metin fyrir Ísland undir lok leiksins. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U19-ára landsliðið í knattspyrnu karla gerði 2:2-jafntefli við Tyrkland þegar liðin áttust við í milliriðli 7 í undankeppni EM 2023 á Englandi í dag.

Tyrkir tóku forystuna á 19. mínútu en eftir tæplega hálftíma leik dró til tíðinda þegar Emre Bilgin, markvörður Tyrklands, fékk beint rautt spjald fyrir að ræna Íslendinga upplögðu marktækifæri innan vítateigs.

Úr vítaspyrnunni skoraði Orri Steinn Óskarsson og staðan 1:1 í leikhléi.

Strax í upphafi síðari hálfleik náðu tíu Tyrkir forystunni að nýju.

Níu mínútum fyrir leikslok fékk Efe Sarikaya sitt annað gula spjald og þar með rautt. Tyrkland lék því tveimur færri það sem eftir lifði leiks.

Tveimur fleiri tókst Íslandi loks að jafna metin þegar Kristian Nökkvi Hlynsson skoraði einni mínútu fyrir leikslok.

Jafnteflið í dag gæti reynst liðinu dýrt þar sem möguleikar liðsins á því að tryggja sér sæti á EM fara hverfandi, enda fer aðeins sigurvegari riðilsins á lokamótið.

Ísland er einnig með heimamönnum í Englandi og Ungverjalandi í milliriðli 7 og verða Englendingar að teljast ansi sigurstranglegir.

Ísland mætir einmitt Englandi næstkomandi laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert