Árleg ráðstefna dómara hjá KSÍ blásin af vegna launadeilna

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson knattspyrnudómari.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson knattspyrnudómari. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Árleg ráðstefna landsdómara KSÍ átti að fara fram í morgun en hún hefur verið blásin af vegna launadeilna dómara við sambandið.

Það er Akureyri.net sem greinir frá en samkvæmt heimildum miðilsins greindu dómarar sambandinu frá ákvörðun sinni í gærkvöldi. Ástæðan er sú að ekki hefur verið gengið frá launasamningi við þá.

Sömu heimildir herma þó að ekki vanti mikið uppá svo samningar náist og að þetta muni ekki hafa nein áhrif á Íslandsmótið sem hefst í næsta mánuði. Dómararnir ætli sér að mæta í alla leiki og sinna sínu starfi.

KSÍ lagði fram tilboð til dómara á föstudag og eftir að hafa rætt það sín á milli var gerð skoðanakönnun innan dómarahópsins um hvernig bregast ætti við því. Niðurstaðan var sú að meirihluti dómara vildi sniðganga ráðstefnuna til að lýsa yfir óánægju.

mbl.is