Pavel sakar aðstoðarþjálfara Blika um leikaraskap

Viktor Örn Margeirsson og Danijel Dejan Djuric í baráttu um …
Viktor Örn Margeirsson og Danijel Dejan Djuric í baráttu um boltann í leik Breiðabliks og Víkings R. á dögunum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það sauð allt upp úr þegar flautað var til leiksloka í leik Breiðabliks og Víkings R. á dögunum. Leikurinn var toppslagur í Bestu deild karla í fótbolta og áttu menn erfitt með að hemja tilfinningar sínar þegar leik lauk.

Víkingur leiddi með tveimur mörkum og virtist ætla að sigla heim þægilegum og mikilvægum sigri en leikmenn Breiðabliks höfðu aðrar hugmyndir í kollinum. Blikar jöfnuðu með tveimur mörkum í uppbótartíma leiksins og mikil fagnaðarlæti brutust út hjá stuðningsmönnum, leikmönnum og þjálfurum Blika.

Þegar Logi Tómasson, leikmaður Víkings R., gekk til búningsklefa virtist hann hrinda Halldóri Árnasyni, aðstoðarþjálfara Breiðabliks. Halldór féll til jarðar og hafa margir sakað hann um að ýkja viðbrögð sín hressilega. Einn þeirra er Pavel Ermolinskij, þjálfari körfuboltaliðs Tindastóls, en hann sagði á Twitter-síðu sinni að þjálfari Blika hefði gerst sekur um leikaraskap og ekki ætti að dæma menn í bann út frá þessu sem gerðist.

mbl.is