Dæmigert lið frá Austur-Evrópu

Åge Hareide landsliðsþjálfari.
Åge Hareide landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðins í knattspyrnu, telur lið Slóvakíu geta hentað því íslenska vel að spila á móti.

„Þetta er lið sem spilar sígilda útgáfu af 4-3-3 leikkerfinu. Þeir hafa bæði beitt hárri og lágri pressu þegar þeir byrja að verjast.

Við sáum það í leik þeirra gegn Bosníu að þeir reyndu að pressa þá í þremur línum, þrír frammi, þrír á miðjunni og fjórir aftast,“ sagði Hareide á blaðamannafundi í dag.

Slóvakía kemur í heimsókn á Laugardalsvöll annað kvöld.

„Þeir búa yfir miklum gæðum og þetta er dæmigert lið austur-evrópskrar þjóðar. Þetta slóvakíska lið hefur vanist aðeins ólíkum hlutum en við, þeir dekka maður á mann. Við getum notað hæfileika okkar gegn slíkri dekkningu með því að toga menn út úr stöðum.

Það ætti að myndast pláss sem við ættum þá að geta spilað í þegar við sækjum. Ég tel að þeir henti okkur vel, að spila gegn þeim. Ég óttast ekki líkamlega þáttinn. Við munum verja markið okkar og vitum hvað við viljum gera,“ bætti Norðmaðurinn við.

„Í undankeppninni er þörf á því að virða alla andstæðinga. Smærri þjóðirnar í Evrópu standa sig oft vel og ég tel að við ættum að koma fram við alla andstæðinga af virðingu og treysta á okkar eigin gæði.

Við erum vel undirbúnir og það er eitt það mikilvægasta, að undirbúa leikmennina fyrir það sem bíður þeirra,“ sagði Hareide einnig á blaðamannafundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert