Blikarnir hafa brotið blað

Blikar fagna öðru markanna gegn Shamrock Rovers í gærkvöld.
Blikar fagna öðru markanna gegn Shamrock Rovers í gærkvöld. mbl.is/Eyþór Árnason

Breiðablik hefur unnið alla fjóra leiki sína í forkeppni og undankeppni Meistaradeildar karla í fótbolta og eru fyrsta liðið sem vinnur það afrek.

Þeir unnu Tre Penne 7:1 og Buducnost 5:0 í forkeppninni og sigruðu síðan Shamrock Rovers 1:0 og 2:1 í fyrstu umferð undankeppninnar.

Forkeppnin hefur verið við lýði í keppninni frá 2018 en aldrei áður hefur lið sem hefur þurft að fara í hana og síðan unnið haldið áfram og unnið mótherja sína í fyrstu umferð undankeppninnar.

Árangur Breiðabliks nú þýðir að liðið hefur tryggt sér sæti í umspili um að komast í riðlakeppni vetrarins, í einhverri þriggja Evrópukeppnanna.

Með því að vinna FC Köbenhavn eiga Blikarnir enn möguleika á að fara í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Tapi þeir fyrir Dönunum fara þeir í þriðju umferð Evrópudeildarinnar. Vinni þeir mótherja sína þar fara þeir í umspilið um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og eru jafnframt öruggir með sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Tapi Blikarnir í þriðju umferð Evrópudeildarinnar fara þeir í umspil Sambandsdeildarinnar og fá því þar þriðja tækifærið til að komast í riðlakeppni hennar.

Leikir Breiðabliks og FC Köbenhavn fara fram á Kópavogsvelli þriðjudaginn 25. júlí og miðvikudaginn 2. ágúst.

Breiðablik mun síðan leika fjóra Evrópuleiki til viðbótar í ágúst, einn í hverri viku eftir leikina við FC Köbenhavn.

Þá hefur árangur Breiðabliks, ásamt sigri KA gegn Connah's Quay Nomads frá Wales frá dögunum, rakað inn stigum fyrir Ísland á styrkleikalista UEFA í sumar og ljóst að þátttaka í forkeppni Meistaradeildarinnar er úr sögunni næstu árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert