Frá Breiðabliki til danskra Íslandsvina

Ágúst Eðvald Hlynsson í leik með Breiðabliki í Sambandsdeild Evrópu …
Ágúst Eðvald Hlynsson í leik með Breiðabliki í Sambandsdeild Evrópu í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Ágúst Eðvald Hlynsson er genginn til liðs við danska félagið AB frá Breiðabliki. AB kaupir Ágúst Eðvald, sem skrifaði undir samning til sumarsins 2027.

Danska íþróttablaðið Tipsbladet greinir frá.

AB leikur í C-deild í Danmörku og siglir lygnan sjó í deildinni um þessar mundir, er með 22 stig í sjötta sæti, sem er síðasta umspilssætið um laust sæti í B-deild. Félagið er gamalt stórveldi sem er frægt í Íslandssögunni fyrir að vera fyrsta erlenda félagsliðið sem heimsótti Ísland árið 1919.

Ágúst Eðvald, sem er 23 ára gamall kantmaður og sóknartengiliður, gekk til liðs við Breiðablik fyrir tæpu ári síðan frá danska félaginu Horsens.

Þaðan fór hann að láni til bæði FH og Vals og hafði áður leikið með Víkingi úr Reykjavík. Ágúst Eðvald hefur einnig leikið með unglingaliðum Bröndby og Norwich City og yngri flokkum Breiðabliks og Þórs á Akureyri.

Hann er eldri bróðir Kristians Nökkva Hlynssonar, leikmanns hollenska stórveldisins Ajax og íslenska landsliðsins.

Uppfært kl. 12.50:
AB hefur staðfest komu Ágústs til félagsins á heimasíðu sinni. Hann  verður fyrsti Íslendingurinn sem leikur með aðalliði AB frá því Samúel Thorsteinsson frá Bíldudal lék með liðinu frá 1915 til 1921. Þá var Dagur Austmann Hilmarsson um skeið leikmaður unglingaliðs AB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert