Fjölnir á toppinn

Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði fyrsta mark leiksins.
Guðmundur Karl Guðmundsson skoraði fyrsta mark leiksins. mbl.is/Eyþór Árnason

Fjölnir tyllti sér á topp 1. deildar karla í knattspyrnu með því að leggja Þrótt úr Reykjavík að velli, 3:1, í fyrsta leik fjórðu umferðar í Egilshöll í Grafarvogi í kvöld.

Fjölnir er á toppnum með tíu stig, einu meira en Njarðvík í öðru sæti, sem á leik til góða. Þróttur er í 11. sæti með aðeins eitt stig.

Markalaust var í leikhléi en snemma í síðari hálfleik, á 51. mínútu, kom fyrirliðinn Guðmundur Karl Guðmundsson liði Fjölnis í forystu með glæsilegu skoti fyrir utan vítateig.

Skömmu síðar, á 57. mínútu, skoraði Axel Freyr Harðarson annað mark Fjölnis þegar Þórhallur Ísak Guðmundsson í marki Þróttar gerði sig sekan um skelfileg mistök.

Reyndi hann að fara framhjá Axel Frey sem hirti boltann af honum, lék á einn varnarmann og renndi boltanum í autt markið.

Á 71. mínútu fékk Fjölnir dæmda vítaspyrnu þegar hendi var dæmd á Birki Björnsson, varnarmann Þróttar.

Úr henni skoraði Máni Austmann Hilmarsson af miklu öryggi.

Þremur mínútum síðar minnkaði Þróttur muninn þegar skot Izaro Abella fyrir utan vítateig fór beint á Halldór Snæ Georgsson í marki Fjölnis. Hann klikkaði hins vegar illa og missti boltann í netið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert