Vestri tók dýrmætt stig í Vesturbænum

Elmar Atli Garðarsson fyrirliði Vestra og Theódór Elmar Bjarnason fyrirliði …
Elmar Atli Garðarsson fyrirliði Vestra og Theódór Elmar Bjarnason fyrirliði KR í leiknum á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Óttar

KR og Vestri gerðu 2:2 jafntefli í 8. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í dag. Í hálfleik benti fátt til þess að Vestri myndi fá stig úr leiknum, en þeir náðu að jafna leikinn með tveimur mörkum á u.þ.b. fimm mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik og þar við sat.

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti, þar sem Pétur Bjarnason fékk fyrsta færi leiksins strax á fyrstu mínútu. Hann náði hins vegar ekki að stýra skalla sínum á markið.

Þó að nokkuð jafnræði væri með liðunum á fyrstu mínútunum áttu heimamenn hættulegri sóknir en gestirnir, og skilaði það sér strax á 8. mínútu þegar Benóný Breki Andrésson fékk knöttinn á vítateignum eftir gott spil upp vinstri kantinn og skaut honum laglega framhjá William Eskelinen, markverði Vestra, sem átti annars mjög góðan leik.

Vestramenn lögðu ekki árar í bát og héldu uppi góðri baráttu úti á vellinum, en sköpuðu sér að öðru leyti fá skotfæri. Það var því ekki ósanngjarnt þegar KR-ingar tvöfölduðu forystu sína á 39. mínútu, en Theódór Elmar náði þar að koma sér í ákjósanlega fyrirgjafastöðu. Benóný Breki þakkaði pent fyrir sendinguna og skallaði boltann laglega framhjá Eskilinen.

Það var fátt í hálfleik sem benti til annars en að KR-ingar myndu hér landa þægilegum sigri á nýliðunum, en Vestramenn voru á öðru máli. Lögðu þeir mikið á sig í baráttunni úti á velli þó að KR-ingar væru áfram mestmegnis með yfirhöndina. 

Baráttan skilaði þeim á endanum marki, en þá komst Silas Dylan Songani einn á móti Guy Smit sem fór í úthlaupið til að taka boltann. Tókst Smit ekki betur til en svo að hann tók bæði mann og bolta og jafnvel meira af manninum, og var Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, fljótur að benda á punktinn. 

Vladimír Tufegdzic steig þar fram og skoraði úr vítaspyrnunni af miklu öryggi, þar sem hann þrumaði boltanum uppundir slána á meðan Smit skutlaði sér til vinstri. 

Heimamenn voru enn að jafna sig á þriðja markinu, þegar Vestramenn fengu hornspyrnu, en Tufegdzic skallaði spyrnuna niður á markteiginn þar sem Pétur Bjarnason sneri baki í markið og skellti hælnum í boltann sem fór inn. 

Hin þægilega staða heimamanna í hálfleik var þar með að engu orðin, og ljóst að þeir myndu þurfa að sækja meira til þess að reyna að knýja fram sigur. Vestramenn héldu hins vegar áfram að berjast af fullum krafti, og hefði Tufegdzic jafnvel getað skorað þriðja mark gestanna með góðu skoti á 76. mínútu, en Smit varði vel í marki KR.

Leikurinn fjaraði í raun út eftir það og sanngjarnt 2:2 jafntefli niðurstaðan í Vesturbænum. KR-ingar hafa þar með fengið eitt stig á heimavelli í sumar, og brokkgengt gengi þeirra heldur áfram. 

Vestramenn eiga hins vegar mikið hrós skilið fyrir þá baráttu sem þeir lögðu í leikinn. Karakter liðsins skein í gegn, jafnt í stöðunni 2:0 sem 2:2, og nái þeir að sýna sömu baráttu og í dag í næstu leikjum hefur ekkert lið efni á því að vanmeta þá. 

KR 2:2 Vestri opna loka
90. mín. Jeppe Gertsen (Vestri) fær gult spjald Fyrir tæklingu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert