Þetta var því bara ömurlegt

Leikmenn Tindastóls verjast í Boganum í gærkvöld.
Leikmenn Tindastóls verjast í Boganum í gærkvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Lið Tindastóls í Bestu-deild kvenna í fótbolta er búið að standa sig vel í deildinni í sumar. Í kvöld kom skellur þegar liðið tapaði 5:0 fyrir Þór/KA á Akureyri.

Heimakonur réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik og skoruðu þá fjögur mörk.

Donni þjálfari Tindastóls á það til að hafa gaman af því að tala um fótbolta en hafði þetta bara einfalt í kvöld.

„Fyrri hálfleikurinn í kvöld var ekki góður af okkar hálfu. Mest svekkjandi var að fá á sig mörk úr föstum leikatriðum og það tvö. Þetta hefur haldið í allt sumar og mjög lengi. Við erum bara ekki að fá á okkur mörk úr föstum leikatriðum. Þetta var því bara ömurlegt. Heilt yfir þá var þetta ekki góður leikur. Seinni hálfleikurinn var þó skömminni skárri. Þór/KA vann þetta verðskuldað.“

Lið Akureyringa er að blanda sér í slag Vals og Breiðabliks um toppsætin. Þetta er lið sem getur velgt þeim undir uggum.

„Þær eru góðar og liðið er á blússandi siglingu. Ég hef sagt það margoft að Þór/KA er klárlega þriðja besta lið deildarinnar og mögulega getur það farið ofar en í 3. sætið. Þetta er vel spilandi lið og það er venjulega gott liðið hérna á Akureyri. Það er erfitt við þær að eiga.“

Þið eruð nýbúin að spila við Þór/KA í bikarkeppninni og það var mun jafnari leikur.

„Veðrið spilaði nú sinn þátt þar. Það var mikill vindur á annað markið. Það var líka önnur keppni og öðruvísi barátta. Erfiðara að spila fótbolta.“

Deildin virðist vera að þróast þannig að þrjú lið skera sig frá en öll hin liðin eru þá að berjast í neðri hlutanum.

„Efstu þrjú liðin eru bara bestu liðin en öll hin geta tekið stig af þeim en svo berjast þau innbyrðis. Við ætlum að standa okkur vel í þeirri baráttu sem við erum í. Við eigum leikmenn inni og heilmikið líka fótboltalega séð.“

Talandi um það. Birgitta Rún var ekki með ykkur í dag.

„Nei hún var í skólaferðalagi í Danmörku með 10. bekk. Svo söknum við þess að hafa ekki Gabrielle en hún hefur misst af tveimur síðustu deildarleikjum. Þær verða örugglega með í næsta leik“ sagði Donni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert