Vonandi óþarfi að svekkja okkur á að hafa ekki unnið stærra

Íslenska liðið fagnar sigrinum gegn Hollandi í gærkvöldi.
Íslenska liðið fagnar sigrinum gegn Hollandi í gærkvöldi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur unnið báða leiki sína í B-riðli EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu. Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, telur leikplan Íslands hafa að mestu gengið vel upp í báðum leikjunum til þessa.

Liðið er þrátt fyrir sigrana tvo, gegn Portúgal og Hollandi, ekki öruggt um sæti í milliriðli og þarf að fara gætilega gegn heimamönnum í Ungverjalandi í lokaleik liðanna í riðlinum á morgun.

„Portúgalsleikurinn var nokkuð góður og við leystum það verkefni mjög vel sóknarlega og vorum að nýta þá styrkleika hjá þeim leikmönnum sem voru að spila, eins og Ómari Inga [Magnússyni].

Hann byrjaði oft í aðgerðum og sama með Gísla [Þorgeir Kristjánsson], mér fannst þeir gera það virkilega vel. Þetta voru svona einföld stöðuskipti og svo færir línumaðurinn sig frá til þess að búa til pláss. Það gerðu þeir mjög vel,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is.

Leiknum gegn Portúgal, sem fór fram á föstudagskvöld, lauk með 28:24-sigri Íslands. Var íslenska liðið við stjórn nánast allan leikinn.

Auðvitað eru Portúgalarnir ekki alveg með sitt sterkasta lið, það vantar marga hjá þeim, en mér fannst við gera þetta mjög vel. Við skorum 28 mörk og fáum á okkur 24.

Markvarslan var allt í lagi, Viktor [Gísli Hallgrímsson] kom þar sterkur inn í restina og varði mikilvæga bolta. Þannig að það var fínn leikur,“ bætti hann við.

Hollendingarnir voru góðir

Í gærkvöldi mörðu Íslendingar svo Hollendinga, 29:28.

„Varðandi leikinn í gær var ósköp svipað upplegg og mér fannst Hollendingarnir bara góðir. Það er auðvitað spurning með varnarleikinn hjá okkur. Þetta eru ekki einhverjir tveggja metra menn og einhverjar sleggjur sem skora frá níu metrum, við vorum svolítið opnir á köflum.

En það er bara með þessa vörn, hún býður stundum upp á það að annað hvort ná menn algjörlega að stoppa leikmenn og tækla þá eða þá að þetta opnast mjög,“ sagði Patrekur um leikinn gegn Hollandi.

Patrekur Jóhannesson er þjálfari karlaliðs Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson er þjálfari karlaliðs Stjörnunnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þá var Björgvin [Páll Gústavsson] mjög sterkur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það gekk þannig upp þó að færin hafi oft verið opin. Það er líka styrkleiki hjá Bjögga, hann er mjög sterkur í þessari stöðu, maður á móti manni frá sex metrum, hvort sem það er horn eða lína,“ bætti Patrekur við.

Hann nefndi svo sérstaklega innkomu Janusar Daða Smárasonar. 

„Þetta var hraður leikur og Hollendingarnir keyrðu grimmt. Við hikstuðum kannski aðeins þegar þeir skiptu í 5-1 vörn en við vorum samt að fá ágætis færi. Það sýnir líka bara styrkleikann hjá okkar liði þegar Janus Daði kom inn af bekknum.

Hann kom með mikinn kraft og bjó til mörg mörk. Hann þurfti ekki langan tíma til þess að stimpla sig inn í leikinn. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir hann en það var mjög klókt hjá þjálfarateyminu að henda honum inn, það heppnaðist.

Ég tel að þessir leikir hafi bara verið fínir. Auðvitað er hægt að spyrja: „Af hverju unnum við ekki stærra?“ Vonandi þurfum við ekki að svekkja okkur á því en ég held að þessi leikur á morgun verði rosalegur,“ sagði Patrekur Jóhannesson að lokum í samtali við mbl.is.

Nánar er rætt við Patrek í Morgunblaðinu á morgun, þar sem farið er yfir leikinn gegn Ungverjalandi.

mbl.is