Smitin orðin tólf hjá Þjóðverjum

Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands.
Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands. AFP

Kórónuveiran hefur lagst illa á þýska karlalandsliðið í handknattleik, sem er á meðal þátttökuþjóða á EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu um þessar mundir.

Í dag reyndust þrír leikmenn til viðbótar smitaðir og tala smitaðra leikmanna er því komin upp í tólf.

Christoph Steinert, Sebastian Heymann og Djibril M'Bengue greindust með veiruna í dag og bætast þar með í hóp með Andreas Wolff, Kai Häfner, Luca Witzke, Timo Kastening, Lukas Mertens, Julius Kühn, Hendrik Wagner, Marcel Schiller og Till Klimpke.

Í fyrradag kallaði Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands, á fimm nýja leikmenn í hópinn vegna þessara fjölda smita.

Nú hefur smitunum fjölgað enn frekar og því næsta víst að Alfreð þurfi að velja nokkra leikmenn til viðbótar í leikmannahóp sinn.

Leikfærir leikmenn í þýska hópnum eru enda aðeins 12 um þessar mundir en alls mega 16 leikmenn vera á skýrslu í hverjum leik á EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert