Fyrrverandi leikmaður Liverpool með heilaæxli

Dominic Matteo
Dominic Matteo AFP

Fyrrverandi leikmaður Liverpool, Dominic Matteo, hefur gengist undir aðgerð vegna heilaæxlis en félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

Samkvæmt tilkynningu félagsins fór hann í aðgerð á mánudaginn var og er nú kominn úr gjörgæslu. Matteo er 45 ára gamall en hann átti farsælan feril með bæði Liverpool og Leeds í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að vera landsliðsmaður Skotlands.

Matteo spilaði með Liverpool árin 1993 og 200 áður en hann gekk til liðs við Leeds þar sem hann komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu ásamt því að vera fyrirliði liðsins um tíma. Hann lagði skóna á hilluna árið 2009.

„Hugur okkar allra hjá félaginu er hjá Dom, fjölskyldu hans og vinum og við munum styðja við bakið á þeim í gegnum þessa erfiðu tíma,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Liverpool.

mbl.is