Keyptu Ástralann eftir hálft ár í láni

Aaron Mooy fagnar eftir að hafa skorað fyrir Brighton gegn …
Aaron Mooy fagnar eftir að hafa skorað fyrir Brighton gegn Bournemouth í úrvalsdeildinni. AFP

Enska knattspyrnufélagið Brighton gekk í dag frá kaupum á ástralska landsliðsmanninum Aaron Mooy frá Huddersfield en hann hefur verið í láni hjá Brighton það sem af er þessu keppnistímabili.

Mooy er 29 ára gamall miðjumaður sem hefur leikið 43 leiki fyrir Ástralíu og var með liðinu á HM 2018 í Rússlandi. Hann kom fyrst 16 ára gamall til Bolton og var þar í fjögur ár án þess að fá tækifæri í aðalliðinu, lék með St. Mirren í Skotlandi eitt tímabil en var síðan með áströlskum liðum næstu fjögur ár.

Manchester City keypti Mooy sumarið 2016 en lánaði hann strax til Huddersfield og þangað fór hann alfarinn ári síðar. Mooy spilaði 65 úrvalsdeildarleiki fyrir Huddersfield á þeim tveimur árum sem liðið var í deildinni. Í sumar fékk Brighton hann lánaðan og þar hefur Ástralinn leikið 17 úrvalsdeildarleiki í vetur og skorað tvö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert