„Klopp var farinn að hlæja“

„Hann var eiginlega farinn að hlæja þegar Aston Villa setur síðustu tvö mörkin,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir um gáttaðan Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, á hliðarlínunni er lærisveinar hans töpuðu 7:2 gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Margrét Lára var að ræða við þá Bjarna Þór Viðarsson og Tómas Þór Þórðarson á Vellinum á Símanum Sport en þau fóru yfir þennan ótrúlega leik þar sem Englandsmeistararnir fengu skell. „Það var eins og þeir hafi aldrei spilað vörn saman, sem þeir hafa samt gert trilljón sinnum,“ bætti Margrét við.

Ollie Watkins skoraði þrennu fyrir Aston Villa í leiknum en hann var keyptur frá Brentford í sumar. „Að skora þrennu á móti Liverpool, ég veit ekki hvenær það gerðist síðast,“ spurði Margrét Lára en það var einmitt Dimitar Berbatov sem gerði það, í leik Manchester United og Liverpool fyrir tíu árum. Myndskeiðið má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert