Jóhann Berg: Eitt af mörkum tímabilsins

„Að sækja þrjú stig á erfiðum útivelli eftir nokkra erfiða leiki, frábær frammistaða,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Burnley, eftir að hann skoraði fyrsta markið í 3:0-útisigri á Crystal Palace í dag.

Þetta var annar deildarleikurinn í röð sem íslenski landsliðsmaðurinn skorar í en hann skoraði eina marki Burnley í 1:1-jafntefli gegn Brighton í síðustu umferð. Hann var þó tilbúinn að viðurkenna að markið hans var ekki það besta í leiknum. Samherji hans Matthew Lowton kom Burnley í 3:0 með þrumufleyg í síðari hálfleik.

„Ótrúlegt mark, eitt það besta á tímabilinu og ég er ánægður fyrir hans hönd. Það skiptir ekki máli hver skorar þau hjá okkur,“ bætti Jóhann við en viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert