Missir af byrjun tímabilsins

Martin Dúbravka skorar hræðilegt sjálfsmark á EM í sumar.
Martin Dúbravka skorar hræðilegt sjálfsmark á EM í sumar. AFP

Martin Dúbravka, markvörður enska knattspyrnufélagsins Newcastle United og slóvakíska landsliðsins, missir af byrjun næsta tímabils vegna meiðsla.

Dúbravka er að glíma við meiðsli á fæti þar sem óttast er að hann hafi brotið bein. Af þeim sökum verður hann frá í að minnsta kosti sex vikur.

Þar sem nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni hefst um miðjan ágúst og ekki er reiknað með Dúbravka til baka fyrr en undir lok þess mánaðar eða í upphafi september, mun hann missa af byrjun tímabilsins.

Dúbravka er aðalmarkvörður Newcastle og slóvakíska landsliðsins. Hann vakti athygli í leik gegn Spáni á Evrópumótinu í sumar þegar hann skoraði eitt skrautlegasta sjálfsmark í manna minnum.

Dúbravka var fyrir þennan leik búinn að eiga mjög gott mót og raunar búinn að leika vel í leiknum þar til að ógæfan dundi yfir.

Allt fór úrskeiðis í kjölfar sjálfsmarksins, fyrsta marks leiksins, og Slóvakía tapaði að lokum 0:5.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert