Schumacher tekur upp hanskann fyrir Montoya

Michael Schumacher hlær að einhverju sem Juan Pablo Montoya hefur …
Michael Schumacher hlær að einhverju sem Juan Pablo Montoya hefur látið út úr sér. ap

Michael Schumacher hefur komið keppinaut sínum Juan Pablo Montoya til varnar en hann hefur misst af tveimur síðustu mótum Formúlu-1 vegna meiðsla.

Orðrómur hefur verið á kreiki þess efnis að Montoya hafi axlarbrotnað í mótorhjólaslysi. Opinber skýring hans sjálfs á meiðslunum er að honum hafi skrikað fótur í tennisleik með þeim afleiðingum að hann féll flatur og við það hafi viðbein brákast.

Schumacher segir að ekki megi fordæma ökuþóra þótt þeir taki áhættur utan vallar. Sjálfur varði hann vetrinum að mestu í norskum skíðabrekkum. „Menn geta ekki dregið sig inn í skel sína,“ segir Schumacher.

Heimsmeistarinn hefur gott vald á venjulegum skíðum en játar að hafa í vetur reynt að ná tökum á snjóbretti sem er margfalt hættulegri íþrótt en hefðbundin skíðun.

„Það gengur einfaldlega ekki að menn fórni öllu fyrir að vera kappakstursmenn. Nei, menn myndu senn missa áhugahvötina,“ segir Schumacher.

mbl.is