150. mót Force India

Nico Hülkenberg á ferð í kappakstrinum í Mexíkó á Force …
Nico Hülkenberg á ferð í kappakstrinum í Mexíkó á Force India bíl. mbl.is/afp
Force India heldur upp á þau tímamót í kappakstrinum í Abu Dhabi á sunnudag, að það verður 150. mót liðsins. Liðið er í fimmta sæti í keppni bílsmiða í formúlunni í ár.

Ökumennirnir Sergio Perez og Nico Hülkenberg hafa verið í stuði frá því nýr bíll var tekinn í notkun í breska kappakstrinum í Silverstone. Hafa þeir aflað liðinu 81 stigs í síðustu átta mótum. 
Svo mikið stigaskor í ekki fleiri mótum hefur liðið ekki unnið frá því það hóf göngu sína árið 2008. Úr þessu verður því ekki velt úr fimmta sætinu sem er besti árangur í sögu þess.

Liðsstjórinn Vijay Mallya segir að markmiðið um helgina sé að hafa gaman af kappakstrinum í Abu Dhabi, njóta hans og klára vertíðina með stæl. Engin pressa sé á liðinu og það hafi engu að tapa. „Vonandi getum við haldið upp á tímamótin með öflugri frammistöðu á brautinni,“ segir hann.

Perez komst á verðlaunapall í rússneska kappakstrinum í Sotsjí og hafði liðið áður aðeins einu sinni átt mann á palli. Fyrir lokamótið er Perez í níunda sæti í stigakeppni ökumanna, 16 stigum á undan Hülkenberg sem er í tíunda sæti og aðeins þremur stigum á undan Romain Grosjean hjá Lotus og Max Verstappen hjá Toro Rosso.
mbl.is