Mun fljótari í ár en í fyrra

Með ráspólstíma sínum í Melbourne í morgun var Lewis Hamilton meira en sekúndu fljótari með brautarhringinn en í fyrra, en þá setti  hann  líka brautarmet eins og í dag. 

Á sama tíma og Mercedes hefur bætt bílinn um sekúndu frá í fyrra hafa önnur lið gert mun betur. Helmingur bílanna er mun hraðskreiðari en 2017. Þar er Renault fremst í flokki.

Í fyrra var það það  lið sem bætti sig mest á árinu og virðist sem franska liðið ætli sér að halda uppteknum hætti í ár líka. Eru bílar þess 1,9 sekúndum hraðskreiðari en fyrir ári séu tímar bornir saman úr tímatökunni í ár og í fyrra.

Bætingin endurspeglast ekki alveg í rásröðinni því Carlos Sainz var hálfri sekúndu lengur með hringinn í lokalotunni en í annarri lotu.

„Þetta er hvetjandi og hefði Carlos ekið jafnhratt í lokalotunni og þeirri næstu á undan hefði hann klárað framan Haasa-bílunum. Við vorum fljótari en McLaren sem er ekki slæmt,“ segir tæknistjóri Renault, Nick Chester.

Haas hefur yfirleitt gengið vel í Melbourne og hafa keppinautar þeirra allir bætt bíla sína meir frá í fyrra en bandaríska liðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert