Bílar tókust á loft

Belgíska kappakstursins verður ekki minnst fyrir skemmtilega keppni, heldur hópáreksturs í fyrstu beygju þar sem bílar tókust á loft og flugu yfir hausamótum ökumanna. Þykir mildi að engan hafi sakað í árekstrahrinunni.

Eins og oft hefur vilja gerast í Spa komst bílahópurinn ekki klakklaust frá fyrstu beygju hringsins. Daniel Ricciardo stangaði hægra afturdekk hjá Kimi Räikkönen á Ferrari og urðu báðir að hætta keppni eftir nokkra hringi vegna afleiðinga þess og þeirra skemmda sem hlutust.

Dramatískast var þó óhappið er McLarenbíll Fernando Alonso tókst á loft og sveif á og yfir Sauberbíl Charles Leclerc. Skelfilega leit það atvik út en bæði Alonso og Leclerc sluppu ómeiddir. Sá er valdur var að þessu var Nico Hülkenberg á Renault og var engu líkar en bremsur hans hafi ekki virkað, svo einkennilega rann bíllinn á Alonso.

Af kappakstrinum sjálfum er það að segja, að Sebastian Vettel á Ferrari náði forystunni af Lewis Hamilton á Mercedes á beina langa kaflanum eftir Rauðavatnsbeygjuna. Jók hann bilið jafnt og þétt og hélst það 3-4 sekúndur lengi vel, að fram að dekkjaskiptum.

Hamilton varð fyrri til að skjótast inn að bílskúr eftir nýjum dekkjum, á 23. hring af 44. Ekki var um annað að ræða fyrir Ferrari að kalla Vettel inn á næsta hring því Hamilton náði flughraða og minnkaði bilið aftur niður í um eina sekúndu. Taugar áhorfenda voru strekktar af spenningi á þessum augnablikum en Adam var ekki lengi í Paradís því Vettel jók fljótt aftur forskot sitt og var það 10-11 sekúndur síðustu hringina. Vann hann sinn 52. mótssigur í formúlu-1.

Þriðji í mark varð Max Verstappen á Red Bull, fjórði Valtteri Bottas á Mercedes, fimmti Sergio Pereez á Force India, sjötti liðsfélagi hans Esteban Ocon, sjöundi Romain Grosjean á Haas og áttundi  liðsfélagi hans Kevin Magnussen. Síðustu tvö stigasætin tóku svo Pierre Gasly á Toro  Rosso og Marcus Ericsson á Sauber.

mbl.is