Draumurinn hrifsaður af mér

Nikita Mazepin.
Nikita Mazepin. AFP

Nikita Mazepin, rússneski ökuþórinn sem var rekinn frá bandaríska Formúlu 1-liðinu Haas um helgina, segir engar lagalegar stoðir vera fyrir brottvikningu sinni og að æskudraumur hans væri úti vegna hennar.

Mazepin, sem er 23 ára gamall, gerði langtímasamning við Haas á síðasta ári áður en honum var rift vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

„Hvað stuðning frá liðinu varðar finnst mér að hann hefði mátt vera meiri því það er enginn lagalegur grundvöllur fyrir því að rifta samningi mínum.

Ég hef sagt frá því að mér þótti það mikill léttir að FIA [Alþjóðasamband bifreiðaeigenda- og akstursíþróttafélaga] hafi ákveðið að leyfa ökumönnum að keppa á hlutlausum grundvelli og satt að segja sneri von mín að því að ég myndi geta keppt þannig.

En augljóslega breyttust hlutirnir til muna þann 5. mars klukkan 11.45 að Moskvutíma og ég glataði draumnum sem ég hafði unnið að undanfarin 18 ár,“ sagði Mazepin í samtali við Mirror Sport.

Dmi­try Mazep­in, faðir Nikita, er eig­andi einn­ar stærstu efna­verk­smiðju Rúss­lands og er vin­ur Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert