Dagnýju boðinn nýr samningur

Dagný Brynjarsdóttir er með landsliðinu í HM-verkefnunum.
Dagný Brynjarsdóttir er með landsliðinu í HM-verkefnunum. Ljósmynd/Reimund Sand

Bandarísku meistararnir í knattspyrnu, Portland Thorns, hafa boðið landsliðskonunni Dagnýju Brynjarsdóttur nýjan samning en hún var að ljúka sínu öðru tímabili með liðinu fyrr í þessum mánuði, þegar það tryggði sér meistaratitilinn.

Þetta kemur fram á vef Portland þar sem farið er yfir leikmannastöðu liðsins fyrir næsta tímabil. Dagný er ein af átta sem boðinn hefur verið nýr samningur og beðið er eftir niðurstöðu.

Dagný er sem kunnugt er með íslenska landsliðinu í Znojmo í Tékklandi þar sem það mætir heimakonum í undankeppni HM á morgun en hún skoraði tvívegis í sigrinum frækna á Þjóðverjum í Wiesbaden, 3:2, á föstudaginn. Um hann er fjallað talsvert á vef Portland og sýnt vídeó af seinna markinu, og ljóst að þar á bæ eru menn stoltir af sínum leikmanni.

Þegar liggur fyrir að margir lykilmanna Portland verða áfram en þó eru tvær af þeim þekktustu á förum. Franski miðjumaðurinn Amandine Henry er á leið til Evrópumeistara Lyon í heimalandi sínu og danski framherjinn Nadia Nadim er á leið til ensku meistaranna Manchester City.

mbl.is