Lukaku sá um Sviss í riðli Íslands

Romelu Lukaku skorar sigurmark Belga í kvöld.
Romelu Lukaku skorar sigurmark Belga í kvöld. AFP

Romelu Lukaku reyndist hetja Belga í 2:1-sigri á Sviss í öðrum riðli A-deildarinnar í Þjóðadeildinni í fótbolta í Brussel í kvöld. Hann skoraði bæði mörk Belga í leiknum og kom sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok. 

Staðan í hálfleik var markalaus en Lukaku kom Belgum yfir á 58. mínútu eftir undirbúning Thomas Meunier. Sviss jafnaði með marki frá Mario Gavranovic á 76. mínútu eftir aukaspyrnu Xherdan Shaqiri, leikmanns Liverpool. 

Lukaku var hins vegar ekki hættur því hann skoraði aftur á 84. mínútu eftir glæsilega sókn þar sem Eden Hazard og Dries Martens spiluðu vel saman með framherjanum stóra og stæðilega. 

Belgar eru á toppi riðilsins með sex stig, Sviss í öðru sæti með þrjú stig og Ísland á botninum án stiga. Ísland mætir Sviss á Laugardalsvelli á mánudaginn kemur og getur með sigri jafnað Sviss á stigum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert