Nálgast íslenska drápseðlið

Lars Lagerbäck stýrir Noregi gegn Slóveníu á útivelli á föstudagskvöld.
Lars Lagerbäck stýrir Noregi gegn Slóveníu á útivelli á föstudagskvöld. mbl.is/Eggert

Lars Lagerbäck hefur gengið allt í haginn á þessu ári sem þjálfara norska karlalandsliðsins í fótbolta. Hann segir liðið sárlega hafa skort meiri grimmd í sinn leik, eins konar stríðshugarfar sem aftur á móti hafi verið einstaklega gott hjá íslenska landsliðinu.

„Þetta var það eina sem kom mér á óvart þegar ég tók við [norska liðinu]. En þegar ég horfi til baka þá átti ég minn þátt í því,“ segir Lagerbäck við Aftenposten. Hann tók við Noregi í fyrra og sá liðið meðal annars tapa 6:0 fyrir Þýskalandi í undankeppni HM. Liðið vann þrjá af fyrstu níu leikjunum undir stjórn Svíans en hefur svo unnið sjö af átta leikjum sínum á þessu ári, og í fimm þeirra hefur liðið haldið marki sínu hreinu. Fram undan eru leikir við Slóveníu og Kýpur í Þjóðadeildinni, þar sem norsku leikmennirnir ættu að mæta með gott sjálfstraust.

„Í upphafi fannst mér eins og að liðið væri aðeins of vingjarnlegt. Að leikmenn skorti þetta drápseðli,“ segir Lagerbäck, sem stýrði íslenska landsliðinu árin 2012-2016.

„Eitt lið sker sig úr af þeim sem ég hef þjálfað, og það er Ísland. Leikmenn liðsins voru með gríðarlega sterkt hugarfar. Maður þurfti lítið að huga að þeim þætti. Ég held að svona sé þetta bara í íslenskri menningu. Þeir [Íslendingar] eru vanir að spjara sig sjálfir,“ segir Lagerbäck.

Hann segir að það hafi ef til vill gert norska liðinu erfiðara fyrir að ná upp rétta hugarfarinu að hann hafi notað mjög marga leikmenn í fyrstu leikjunum. Úrvalið af leikmönnum hafi ekki verið eins mikið á Íslandi en í Noregi hafi um 40 leikmenn verið nokkuð jafnir að gæðum. Eftir að hafa leyft mörgum leikmönnum að sýna sig og sanna hefur Lagerbäck fundið „sitt lið“ og hann er ánægður með liðsandann og vinnuframlagið í síðustu leikjum. Aðspurður hversu nálægt norska liðið sé nú komið því íslenska í þessum efnum segir Svíinn:

„Miðað við það sem menn hafa sýnt í síðustu fjórum leikjum þá eru þeir komnir nálægt. Við fáum góða prófraun núna. Því miður er það þannig í fótbolta að það er svolítið auðveldara að spila á heimavelli. Nú fáum við tvo útileiki og þá fáum við að sjá hvort þeir eru eins góðir og Íslendingarnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert