Modric rauf einokun Ronaldo og Messi

Króatíski landsliðsfyrirliðinn Luka Modric hlaut í kvöld Gullboltann eftirsótta sem besti knattspyrnumaður ársins 2018. Franska ungstirnið Kylian Mbappé fékk hin nýju Kopa-verðlaun sem besti ungi leikmaðurinn.

Cristiano Ronaldo, Antoine Griezmann og Kylian Mbappé voru næstir á eftir Modric í kjörinu. Lionel Messi varð aðeins í 5. sæti. Þeir Messi og Ronaldo hafa hlotið Gullboltann fimm sinnum hvor og hefur enginn annar unnið verðlaunin síðan Kaka hlaut þau árið 2007.

Modric, sem er 33 ára gamall, varð Evrópumeistari með Real Madrid í vor og fylgdi því svo eftir með því að leiða króatíska landsliðið í úrslitaleik HM, þar sem liðið tapaði þó fyrir Frökkum. Hann er fyrsti Króatinn til þess að hljóta Gullboltann.

Listann yfir 30 efstu leikmennina í kjörinu má sjá að neðan.

Kylian Mbappé, sem verður tvítugur síðar í þessum mánuði, varð fyrstur til þess að vinna Kopa-verðlaunin sem besti ungi leikmaður ársins. Mbappé varð heimsmeistari með franska landsliðinu og vann þrennuna með PSG, auk þess vera valinn besti ungi leikmaðurinn á HM og í heimslið FIFPro, alþjóðasamtaka leikmanna.

Luka Modric smellir kossi á Gullboltann í París í kvöld.
Luka Modric smellir kossi á Gullboltann í París í kvöld. AFP

Norska markamaskínan Ada Hegerberg varð fyrst kvenna til að hljóta Gullboltann eins og greint var frá hér á mbl.is fyrr í kvöld.

Alls taka 195 íþróttafréttamenn frá jafnmörgum löndum þátt í kjöri France Football sem fyrst veitti verðlaunin árið 1956. Á árunum 2010-2015 voru verðlaunin veitt í samstarfi við FIFA en því samstarfi var svo slitið og veitir FIFA sín eigin verðlaun, þar sem landsliðsþjálfarar og -fyrirliðar hafa atkvæðisrétt ásamt íþróttafréttamönnum.

1. Luka Modric, Real Madrid og Króatíu
2. Cristiano Ronaldo, Juventus og Portúgal
3. Antoine Griezmann, Atlético Madrid og Frakklandi
4. Kylian Mbappé, PSG og Frakklandi
5. Lionel Messi, Barcelona og Argentínu
6. Mohamed Salah, Liverpool og Egyptalandi
7. Raphaël Varane, Real Madrid og Frakklandi
8. Eden Hazard, Chelsea og Belgíu
9. Kevin De Bruyne, Manchester City og Belgíu
10. Harry Kane, Tottenham og Englandi
11. N‘Golo Kanté, Chelsea og Frakklandi
12. Neymar, PSG og Brasilíu
13. Luis Suárez, Barcelona og Úrúgvæ
14. Thibaut Courtois, Real Madrid og Belgíu
15. Paul Pogba, Manchester United og Frakklandi
16. Sergio Agüero, Manchester City og Argentínu
17.-18. Gareth Bale, Real Madrid og Wales
Karim Benzema, Real Madrid og Frakklandi
19.-21. Roberto Firmino, Liverpool og Brasilíu
Ivan Rakitic, Barcelona og Króatíu
Sergio Ramos, Real Madrid og Spáni
22.-24. Edinson Cavani, PSG og Úrúgvæ
Sadio Mané, Liverpool og Senegal
Marcelo, Real Madrid og Brasilíu
25.-27. Alisson Becker, Liverpool og Brasilíu
Mario Mandzukic, Juventus og Króatíu
Jan Oblák, Atlético Madrid og Slóveníu
28. Diego Godín, Atlético Madrid og Úrúgvæ
29.-30. Isco, Real Madrid og Spáni
Hugo Lloris, Tottenham og Frakklandi

Kylian Mbappé má vera kátur eftir frábært ár. Hann hlaut …
Kylian Mbappé má vera kátur eftir frábært ár. Hann hlaut Kopa-verðlaunin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert