Sú danska best hjá Guardian

Stephany Mayor og Pernille Harder eigast við í leik Þórs/KA ...
Stephany Mayor og Pernille Harder eigast við í leik Þórs/KA og Wolfsburg í Meistaradeild Evrópu á Þórsvellinum í haust en þar skoraði Harder sigurmarkið, 1:0. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Pernille Harder frá Danmörku, samherji Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá þýska meistaraliðinu Wolfsburg, er besta knattspyrnukona heims á árinu 2018, samkvæmt kosningu enska fjölmiðilsins The Guardian sem birti fyrir stundu lokaniðurstöðu sína í valinu á þeim 100 bestu í heiminum.

Pernille Harder, sem er 26 ára gömul, var markadrottning þýsku 1. deildarinnar 2017-18 og var í ágúst útnefnd besta knattspyrnukona Evrópu. Hún hefur skorað 23 mörk í 33 deildaleikjum fyrir Wolfsburg og samtals 32 mörk í 42 mótsleikjum, gerði áður 70 mörk í 87 deildaleikjum fyrir Linköping í Svíþjóð og hefur gert 53 mörk í 105 landsleikjum fyrir Danmörku, þar sem hún er næstmarkahæsta landsliðskonan frá upphafi.

Sam Kerr frá Ástralíu, leikmaður Perth Glory í heimalandi sínu og ástralska landsliðsins, varð önnur og Ada Hegerberg frá Noregi, leikmaður Lyon í Frakklandi, sem á dögunum fékk Gullboltann hjá France Football, hafnaði í þriðja sæti.

Evrópumeistarar Lyon í Frakklandi eiga fimm af tíu efstu leikmönnum listans og Frakkar eiga einnig flesta leikmenn í þeim hópi, eða þrjá, enda þótt engin frönsk kona hafi komist í eitt fjögurra efstu sætanna.

Röð 10 bestu er á þessa leið:

1. Pernille Harder, Danmörk og Wolfsburg
2. Sam Kerr, Ástralía og Perth Glory
3. Ada Hegerberg, Noregur og Lyon
4. Lucy Bronze, England og Lyon
5. Eugénie Le Sommer, Frakkland og Lyon
6. Amandine Henry, Frakkland og Lyon
7. Alex Morgan, Bandaríkin og Orlando Pride
8. Wendie Renard, Frakkland og Lyon
9. Lieke Martens, Holland og Barcelona
10. Megan Rapinoe, Bandaríkin og Seattle Reign

Eins og fram kemur í meðfylgjandi frétt frá því gær um þær sem enduðu í sætum 11 til 40 varð Sara Björk í 31. sæti og hún er í sjötta sæti af leikmönnum Wolfsburg. Þýska meistaraliðið á tíu leikmenn á 100 manna listanum en Lyon, sem vann Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor, á hins vegar tíu leikmenn í fyrstu 30 sætunum og þrettán í 100 manna hópnum.

Guardian fékk íþróttafréttamenn, fyrrverandi og núverandi leikmenn og þjálfara víðs vegar að úr heiminum til að greiða atkvæði og finna þannig út 100 bestu knattspyrnukonur heims á þessu ári. Í hópi þeirra sem kusu er Ana Cate, leikmaður HK/Víkings, sem hefur spilað með Stjörnunni undanfarin ár, en hún er landsliðskona Níkaragúa.

mbl.is