Albanar samstiga Íslendingum á blómaskeiðinu

Christian Panucci landsliðsþjálfari Albaníu.
Christian Panucci landsliðsþjálfari Albaníu. AFP

Þótt seint verði sagt að miklir skyldleikar séu með Íslendingum og Albönum eiga þjóðirnar eitt og annað sameiginlegt þegar kemur að knattspyrnu. Þær verða saman í riðli í undankeppninni fyrir Evrópumótið 2020 og mætast því tvívegis á þessu ári.

Bæði Íslendingar og Albanar voru lengi vel meðal lægst skrifuðu knattspyrnuþjóða Evrópu. Þjóðirnar komust á sömu stundu í lokakeppni stórmóts í fyrsta skipti þegar liðin léku bæði í lokakeppni EM í Frakklandi sumarið 2016. Báðar þjóðir unnu þar sinn fyrsta leik í lokakeppni stórmóts með nokkurra daga millibili, og hafa á þessum síðustu árum báðar átt sitt besta skeið í sögu karlalandsliða sinna í fótbolta.

Til viðbótar áttu bæði lið Íslendinga og Albana í basli í Þjóðadeild UEFA haustið 2018.

Nýr og glæsilegur völlur

Albanar verða þriðju andstæðingar Íslendinga í undankeppninni en þjóðirnar mætast á Laugardalsvellinum 8. júní. Rúmum tveimur mánuðum síðar fer seinni viðureignin fram, 10. september, og þá verður væntanlega spilað á splunkunýjum leikvangi Albana, Arena Kombëtare (Þjóðarleikvanginum), í höfuðborginni Tirana. Hann er að rísa í stað gamla leikvangsins Qemal Stafa, þar sem Ísland hefur spilað þrívegis, en undanfarin tvö ár hafa flestir heimaleikir Albana farið fram í borginni Elbasan.

Arena Kombëtare á að rúma 22.500 áhorfendur en Qemal Stafa, sem var rifinn til að rýma fyrir nýja leikvanginum, tók 20 þúsund manns. Hlaupabrautin hefur verið fjarlægð og leikvangurinn á að vera hinn glæsilegasti og m.a. sambyggður nýju hóteli, Tirana Marriott.

Ummæli Arons, rigningin og mark Gylfa

Íslendingar þekkja ágætlega til albanska landsliðsins eftir að hafa mætt því tvisvar í undankeppni HM 2014. Ísland vann sögulegan leik í Tirana í október 2012 þar sem ungur fyrirliði Íslands, Aron Einar Gunnarsson, talaði óvarlega um albönsku þjóðina í aðdraganda leiksins. Annars lifir sá leikur í minningunni vegna gríðarlegra rigningar, þar sem tvísýnt var um hvort hægt væri að hefja síðari hálfleikinn vegna slæmra vallarskilyrða, og vegna glæsilegs sigurmark Gylfa Þórs Sigurðssonar sem tryggði Íslandi sigur, 2:1, með þrumufleyg úr aukaspyrnu í stöngina og inn á 81. mínútu.

Birkir Bjarnason hafði komið Íslandi yfir snemma leiks en Edgar Cani jafnað fyrir heimamenn ellefu mínútum síðar.

Ísland og Albanía voru þarna í harðri keppni um að komast í umspil fyrir HM 2014, ásamt Noregi og Slóveníu, en Albanar stóðu vel að vígi þegar riðlakeppnin var hálfnuð.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert