Willum brýtur blað með samningi við BATE

Willum Þór er orðinn leikmaður Bate Borisov.
Willum Þór er orðinn leikmaður Bate Borisov. Ljósmynd/FCbate.by

Willum Þór Willumsson varð í gær fyrsti íslenski knattspyrnumaðurinn til að semja við hvítrússneskt félag.

Hann gekk þá til liðs við BATE Borisov, sem hefur orðið hvítrússneskur meistari 13 ár í röð, spilað níu sinnum í riðlakeppni Meistaradeildar og Evrópudeildar, og vann Arsenal 1:0 í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fyrrakvöld.

Willum, sem er tvítugur, samdi við félagið til hálfs fjórða árs, eða til sumarsins 2022. BATE kaupir hann af Breiðabliki en félögin höfðu áður komist að samkomulagi um kaupverðið.

Leikið er sumartímabil í Hvíta-Rússlandi og deildakeppnin þar hefst í lok mars. Willum hefur því svigrúm til að laga sig að liðinu og aðstæðum áður en tímabilið hefst. Sextán lið leika í úrvalsdeildinni sem er í gangi fram í lok nóvember.

BATE er með sjö núverandi landsliðsmenn Hvíta-Rússlands innanborðs og liðið er byggt að stórum hluta á heimamönnum. Í hópnum eru þó einnig leikmenn frá Finnlandi, Frakklandi og Serbíu. Liðið er frá Borisov, 150 þúsund manna borg skammt norður af höfuðborginni Minsk.

Willum sprakk út með liði Breiðabliks á síðasta tímabili en áður en það hófst hafði hann leikið níu leiki í efstu deild. Hann spilaði 19 leiki og skoraði í þeim 6 mörk, vann sér sæti í 21-árs landsliðiinu um haustið og spilaði síðan sinn fyrsta A-landsleik núna í janúarmánuði.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »